fimmtudagur, 3. maí 2012

Að hlakka til..

Stundum er ekki allt eins og maður vill það sé. Stundum áttar maður sig á því of oft í viku að maður hélt fyrir nokkrum árum síðan að lífið eftir háskólaútskrift yrði allt öðruvísi en það er í dag. Stundum á maður þá til að smám saman fyllast svartsýni, draga sig inn í vel byggðan þægindahring sinn, hætta að ögra sjálfum sér og nánast því sætta sig við að svona verði þetta bara. Svo allt í einu vaknar maður upp af þessum væra svefni, oft á dögum eins og í dag þar sem sumarið flýtti sér í mark, og leitar leiða til að sjá út... Þegar það hefur tekist grípur maður í listina "að hlakka til". Það er nákvæmlega það sem ég er að gera núna... hlakka til og að neðan eru nokkrar vel valdar ástæður fyrir því.

  • Í maí mánuði eru enn eftir 2 auka rauðir dagar, uppstigningardagur og annar í hvítasunnu
  • Á laugardaginn er ég að fara í Kolaportið að selja (vonandi) helling af dóti sem ég er hætt að nota
  • Í dag seldi ég þriðju meistararitgerðina mína og hlakka til að hafa þær fleiri.
  • Í sumar er ég að fara að skrifa grein uppúr meistararitgerðinni minni og kynna á Þjóðarspeglinum í haust
  • Eftir 41 dag flýg ég til Danmerkur í heimsókn til Fanneyjar, Alexar, Söndru og Odds.
  • Í enda júlí og byrjun ágúst verð ég í sumarfríi.
  • Við Sindri stefnum á að leika okkur örlítið í studio-i á næstunni með texta eftir hann.
  • Ég er búin að sækja um að komast á söngnámskeið í haust
  • Sólin fer að skína og þá fer meikið mitt aftur að passa mér, maður er sjaldan hvítari en í apríl.
  • Í næstu viku ætla ég að byrja að hjóla á Pole-fit æfingar í Skipholtið
  • Haustið 2013 fer ég til NY með algjörum skvísum en við leggjum inn á reikning mánaðarlega til að minnka líkur á beili.
Þetta hefur myndað örlitla tilhlökkunartilfinningu hjá mér. Ég hugsa að ég hiti mér bara te, horfi á America's Next Top Model og lesi Nude Magazine til að klára daginn!

Hver er víst sinnar gæfu smiður, svo það er eins gott að hífa sig upp af rassgatinu með hækkandi sólu....

Engin ummæli:

Skrifa ummæli