miðvikudagur, 9. maí 2012

Sushi og vín

Ég hef aldrei kunnað að drekka vín með neinu og alltaf metið gæðin útfrá hversu svalandi það er að drekka þau ein og sér. Ótal sinnum hef ég þó drukkið rauðvín með kjöti og hvítvín með kjúklingi og fiski en hingað til aðeins dæmt vínið af því hversu lítið vont er að nota það til að bleyta upp í bitanum sem ég er að tyggja.

Ég hef heldur aldrei lært að drekka neitt annað en vatn með sushi. Sushi er eitthvað það albesta sem ég fæ og hingað til hefur mér þótt drykkir eyðileggja bragðið af bitunum, sérstaklega þar sem ég hef verið að nota drykkina til að bleyta upp í bitunum eins og með annan mat. Að þessu öllu sögðu drekk ég líka fáránlega lítinn vökva almennt með mat. Betra að drekka bara hratt á eftir.

Þann 25. apríl síðastliðinn fór ég á fyrsta vínsmökkunarnámskeiðið mitt ásamt Sindra en ég ákvað að skella mér eftir að hafa séð það auglýst á innrivef vinnustaðar míns. Þar sem sushi er í miklu uppáhaldi hjá okkur báðum var ekki verra að byrja sinn vínsmökkunarferil á námskeiðinu "sushi og vín". Námskeiðið var haldið í ostabúðinni á Skólavörðustíg og var á vegum vínskólans og SuZushii (Kringlan). Kennari kvöldsins var Dominique en á hana er hægt að hlusta endalaust tala um vín svo mikil er þekking hennar á þeim efnum. Hún hefur einnig verið fararstjóri í ferðum Vínskólans.

Á rúmlega tveimur tímum fræddumst við um þrúgur, lönd og sushi ásamt því að smakka á 5 tegundum af víni með 5 ólíkum sushi bitum.

stolin mynd fundin á google:)

Fyrst fengum við lítinn gúrku maki bita með Santero Prosecco Craze freyðivíni frá Ítalíu. Freyðivínið og bitann hafði ég smakkað áður, en ekki saman. Þarna við fyrstu smökkun kvöldsins áttaði ég mig á villunni sem fólst í því að drekka vínið ofan í matinn. Þess í stað gerði ég eins og kennarinn sagði mér, lyktaði, sullaði, tók sopa og smakkaði. Síðan setti ég sushi bitann upp í mig og áttaði mig í fyrsta sinn á því hvað vín gæti gert fyrir mat. Þetta var skemmtileg blanda, en langt frá því að vera mín uppáhalds þetta kvöldið.

Í annari umferð fengum við laxa nigiri (kodda) með Willm Riesling víni frá Alsace. Vínið eitt og sér fannst mér örlítið sérstakt en gott. Þetta var hins vegar að mínu mati besta samsetningin sem við fengum þetta kvöld. Vínið vinnur sérstaklega vel með feitum fiski.

Í þriðju umferð fengum við California rúllu með Rapitala Cataratto-Chard frá Sikiley. Sushibitinn var rosalega góður enda sushimeistari SuZushii lærður úti í Japan og allt. Vínið var þéttara, gulara og mýkra en það sem við höfðum smakkað í fyrri umferðum.

Í fjórðu umferð fengum við manhattan maki rúllu sem ég hafði ekki smakkað áður. Fyllingin þar er ommeletta, reykt bleikja og kál. Vínið með henni var Altano (Paul Symington) frá Portúgal, þurrt ávaxtavín. Ég var ekkert sérstaklega hrifin af þessari samsetningu.

Fimmti og síðasti bitinn sem við fengum var nauta teriyaki nigiri (koddi) með Pinot Gris Kientz. Ég hlakkaði mikið til að smakka þennan sushi bita þar sem ég hafði aldrei smakkað neitt þessu líkt áður. Hann var mjög góður og það var vínið líka. Að mínu mati var þetta besta vínið á námskeiðinu til þess að drekka eitt og sér en samsetningin var ekki eins góð og sú sem við fengum í annari umferðinni. Vínið er mjög ferskt og má einnig drekka með kjöti sem er ekki alveg rautt en ekki ljóst eins og kjúklingur, til dæmis önd. Eins benti Dominique á að þetta vín væri gott að bera fram með léttreyktur hamborgarhrygg.

Ég mæli með því að fólk prófi að mæta á vínsmökkunarnámskeið hjá vínskólanum, það er ekki svo dýrt og getur orðið mjög skemmtileg kvöldstund :) Við Sindri enduðum síðan kvöldið á Bæjarins bestu þar sem námskeiðið var haldið á kvöldmatartíma og í boði voru 5 sushibitar eða einn fyrir hverja umferð. Það var ekki alveg nógu mikill matur fyrir okkur svo við bættum við smá eftirrétt. 

Ég mæli líka með því að fólk kíki inn á nýju síðuna sem Sindri var að opna matviss.blog.com en þar má finna uppskriftir, fræðslu og umræðu um mat. Hann startaði síðunni bara í gær og er búinn að setja nokkrar skemmtilegar færslur inn nú þegar. Getið líka farið á http://www.facebook.com/Matviss og smellt einu like-i til að fylgjast betur með því sem fer þangað inn. 

2 ummæli:

  1. Verður ekki dýrt hjá þér að fá þér sushi núna, ótal tegundir af víni til að drekka með? Kv. GÁR

    SvaraEyða
    Svör
    1. Allavega ef ég ætla að kaupa flösku með hverjum bita... og ég borða svona 12 í máltíð. haha! :)

      Eyða