fimmtudagur, 10. maí 2012

Kolaportið: víðari sýn á samfélagið

Síðastliðinn laugardag stóð ég vaktina með Kristrúnu vinkonu minni í Kolaportinu. Hún hafði verið að flytja og þurfti því að losa sig við ýmislegt sem ekki þótti nógu gott til að fylgja henni. Þar sem ég er örlítið skyld föður mínu og á erfitt með að henda hlutum hefur mér tekist á tæpum tveimur árum að yfirfylla geymslu hér á Fálkagötunni sem við áttum ekkert til að geyma inn í þegar við fluttum hingað. Ég sló því til og ákvað að fara með henni. Við áttum vel saman í þessu verkefni þar sem báðar höfðum við áður reynt að selja í Kolaportinu en komið verulega illa útúr þeim viðskiptum, raun svo illa að helgin borgaði sig enganvegin. Við vorum því fljótar að verða sammála um að leigja einungis einn bás saman og annan dag helgarinnar. Básinn fyrir daginn kostar 7.200 kr. en auk þess þarf að leigja slá og borð svo allt í allt voru þetta 9.200 kr. Á þessum eina laugardegi, 6 klukkustundum seldum við samtals fyrir rúmar 50.000 krónur samanlagt þrátt fyrir að flest hefðum við selt á 500 og 200 kr. 

Að standa einn dag í Kolaportinu er samt svo miklu meira en sú hagsýni sem fylgir því að fá smotterí fyrir veraldlega hluti sem skipta þig litlu máli. Þarna sérðu og áttar þig vel á þeirri alþjóðavæðingu sem átt hefur sér stað á Íslandi. Raunar eru það fáir aðrir staðir en Kolaportið og sportbarir miðbæjarins á meistaradeildar-kvöldum sem sýna jafn góðan þverskurð af þjóðerni íbúa Íslands. 
Í Kolaportinu má einnig finna verulega skemmtilegar týpur, alvöru týpur. Áður en opnað er koma þeir sem eiga fasta vikulega bása og renna yfir dótið þitt til að sjá hvort þú eigir eitthvað sem þeim vanti til sölu á sinn bás. Má þar helsta nefna lopakonuna, leðurjakkakonuna, snyrtivörukonuna og síðast en alls ekki síst geisladiskamanninn sem reyndist mér ákaflega vel og keypti 25 diska af mér fyrir opnun. 
Við opnun mæta síðan með miklum látum hagsýnu, oftast asískar, húsmæðurnar sem ætla sér að gera sem best kaup með því að mæta sem fyrst á staðinn. Á hæla þeirra fylgja síðan gramsararnir, en þeir telja sig hafa tapað miklilvægum leik ef hinir atvinnugramsararnir hafa náð að sortera allt hið besta úr áður en þeir mæta á svæðið. Þetta á aðallega við um geisladiska og tölvuleiki. 
Þá eru það atvinnuprúttaranir sem vilja sífellt fá vöruna á sínu verði og þykjast oft ætla að hætta við þar til þeir endurtaka nokkrum sinnum fyrir þig að þeir eigi ekki meiri pening en þeir séu að bjóða. Þegar síðan kemur að því að borga rífa þeir upp peningabúntið og finna ekki 500 kallinn sem þeir buðu fyrir öllum 5000 króna seðlunum í búntinu. Við þá er ekki hægt að vera pirraður, svona viðskiptahætti verður að virða. 
Seinni part dags skríða fram úr rúminu appelsínugulu unglingsstúlkurnar sem mættar eru í Kolaportið til að veiða allt sem á stendur Victoria's secret, Pink, Adidas eða því um líkt. Í kreppu þarf að finna nýjar leiðir til að halda í merkjavöruna. Þær stoppa verulega stutt hjá geisladiskagæjanum og hafa aldrei tekið eftir því að það eru seldar bækur í Kolaportinu. 

Þegar búllunni hefur verið lokað og allir gengið af göflunum í að lækka hjá sér verðið tekur fólkið með föstu básana aftur hringinn til að sjá hvort ekki sé eitthvað sem ófaglærðir Kolaports-sölumenn hafi gefist upp og séu tilbúnir að lækka verulega verðið hjá sér. Þarna er trixið að leyfa sér að vera lengi að ganga frá til að ná sem flestum svona gestum.
 Í lokin til að sýna fram á þann gífurlega fjölbreytileika fólks sem finna má í Kolaportinu má nefna dyggan stuðningsmann Ástþórs Magnússonar sem gekk á milli bása að safna undirskriftum með hárri, skræktri röddu sinni. Kannski ekki hin týpíska Kolaports-týpa en má ekki gleymast.

Af Kolaportinu á ég sjálf margar minningar. Þegar ég var barn hlakkaði ég mest til þess að kaupa þar lukkupakka sem finna mátti víða fyrir 50 eða 100 kr. Aðeins eldri fór ég að sjá hluti þar sem mig langaði verulega í og til að mynda voru keypt þar handa mér hin týpísku hermannastígvél árið 1996 (þegar ég var 10 ára) en þau varð ég að eignast því Óli bróðir átti ein sem hann fór varla úr. Á sama tíma fékk ég mömmu til að raka undir hárið hjá mér og gekk mikið í köflóttum skyrtum og gallabuxum með röndum á hliðinni sem mamma átti sveimér þá held ég rúllu af. Í Kolaportinu gerði ég líka bestu kaup lífs míns, að mér fannst á þeim tíma allavega, þegar ég keypti Chicago Bulls bol á engan pening. Ég mætti mjög oft í honum í íþróttir og skipti það mig engu að á honum miðjum væri sígarettugat. Þar keypti ég líka Liverpool bolinn minn sem var þó meira eins og kjóll á mig, er enn í dag of stór þrátt fyrir að liðin séu ein 15 ár. 
Seinna meir þegar ég bjó í Reykjavík með Margréti minni lögðum við það í vana okkar að kíkja stundum á sunnudögum í Kolaportið. Þá var markmiðið oft einungis að skoða bækur og kaupa Völu-buff. Þar keypti ég einmitt biblíuna mína sem gefin er út um 1950 og kápan úr leðri. Þetta ár keypti ég einnig nokkra kjóla þar sem ýmist voru ætlaðir í góð þemapartý eða bíða enn tækifæris til að láta ljós sitt skína. Þar keypti ég líka handa Sigríði Svandísi rauðan gullfallegan Kína-kjól.



Kolaportið hefur alla tíð, frá því ég man eftir mér, verið í mínum huga heillandi partur af Reykjavík. Þetta er staðurinn sem þú flýrð inn á þegar gluggaveðrið leiddi þig í kuldann niðri í miðbæ, kíkir á til að kaupa bestu kartöflurnar í bænum eða skoða öðruvísi mannlíf en fyrirfinnst í Kringlunni. Það kom mér því verulega á óvart hversu margir sem ég hef kynnst eru á öðru máli og þá ekki síður innfæddir Reykvíkingar sem jafnvel hafa ekki komið þangað í mörg herrans ár.

Ég elska ólíka menningu, ég elska að þekkja fólk sem er ekki eins og ég, hugsar öðruvísi, hefur önnur gildi og hegðar sér stundum undarlega að mínu mati. Í Kolaportinu fæ ég örlítinn snefil af slíkri tilfinningu....

Ég ætla klárlega þangað aftur bráðlega.... þó ekki sé nema til að kaupa mér völubuff.

2 ummæli:

  1. Æðilseg færsla hjá þér :) Húrrrra fyrir Kolaportinu..

    Kv.Steinunn

    SvaraEyða
  2. Nákvæmlega....ég var þarna í dag og fyndið að upplifa þessa menningu sem þarna er.....seldum fyrir 60.000 kall og allir sáttir, var mest hissa á því að hægt er að selja notaðar snyrtivörur, ilmvötn og krem sem búið að taka jafnvel meira en helmingin af....en auðvitað bara á klink - en klink eru líka peningar, ég segi eins og þú ég ætla aftur :-)

    SvaraEyða