mánudagur, 28. maí 2012

Fimm þemadagar

Í síðustu viku var ákveðið að lífga örlítið uppá tilveruna á svarthvíta vinnustaðnum mínum vegna hækkandi sólar og Eurovision. Svo margar góðar hugmyndir að þemadegi höfðu borist skemmtinefndinni á vinnustaðnumað ákveðið var að henda af stað heilli þemaviku þar sem hver dagur var tengdur við þema. Silla ofurþemanörd lét ekki segja sér tvisvar að hún mætti mæta í einhverju öðru en niðurdrepandi svörtu fötunum sínum og var í raun alveg slétt sama hvort aðrir í kring væru að taka þátt í herlegheitunum. Þemapartý og þemadagar gleðja mig fáránlega mikið og hafa alltaf gert.... líka þegar ég er ekki sjálf að stjórna þeim :)
Mér datt í hug að henda hérna inn myndum af dressunum sem ég mætti í þessa 5 daga en myndirnar eru mjög misgóðar þar sem ég gleymdi að sjálfsögðu að spá í þær nema bara fyrsta daginn. 


Mánudagur - bleikur og fjólublár dagur



Mætti í þessum bleika Ginu Tricot kjól sem ég fékk í afmælisgjöf frá Fanneyju, fjólubláum leggings, svörtum hælum og elsku VILA hálf-leðurjakkanum mínum.


Þriðjudagur - binda og slæðudagur



Þar sem mér fannst skemmtilegri hugmynd að mæta með bindi heldur en slæðu þá fékk ég lánað gullfallegt bindi hjá Sindra sem hann keypti fyrir brúðkaup hjá Söndru systur sinni árið 2009, það er kremað með blómamynstri. Myndin af þessu dressi er hræðileg þar sem speglamynd varð að duga því ég vildi bæði ná bindinu og fínu skónum. Ég var í svartri gervi"silki"skyrtu úr Zöru, navy bláum jakka, svörtum nýjum buxum úr vera moda sem ég elska og síðast en alls ekki síst fínu KronbyKronkron skónum mínum sem eru svartir, hvítir og navy bláir með handpressuðu leðri á platforminu. Hugmyndin þessa dagana er nefnilega að reyna að nýta þennan dýra skófatnað meira því hann er svo fallegur :)

Miðvikudagur - doppótt, röndótt og blóma



Ég á að sjálfsögðu doppátta kjóla, röndótta kjóla og blómakjóla í skápnum mínum svo þessi dagur olli örlitlum valkvíða. Ég ákvað þó að lokum að fara í blómakjól þar sem doppótti kjóllinn og röndótti kjóllinn eru báðir svartir og hvítir en ég vildi vera í lit á meðan tækifæri gæfist. Ég fór því í hvítar sokkabuxur sem ég keypti út í H&M árið 2006 og skil ekki af hverju eru ekki löngu ónýtar, blómakjól sem ég keypti í Hagkaup í fyrra og hefur nýst mér ótrúlega vel og jakka úr Vila sem ég keypti í fyrravor til að lýsa örlítið upp vinnufötin.

fimmtudagur - gulur, grænn og blár  

 

Ég var mjög spennt fyrir þessum degi þar sem ég er nýbúin að kaupa mér gular buxur í Vero Moda. Ég mætti því í þeim, grænum bol úr Zöru sem ég keypti fyrir GayPride í fyrra, svartri stutterma gollu úr H&M og hinum KronbyKronkron skónum mínum sem eru einmitt með bæði gulu og grænu í :) Ég er að verða búin að eiga þessi tvenn skópör í ár en er ennþá að dáðst að þeim. 

föstudagur - EUROVISION  


Upprunalega hugmyndin var að mæta sem Silvía Nótt.... en það er erfitt að bankavæða hana Silvíu, auk þess sem ég fór með strætó í vinnuna alla vikuna og veit ekki hvort ég hefði viljað þá athygli sem ég hefði líklegast fengið í þeirri múnderingu í strætó. Ég ákvað því að draga bara upp gamla góða pallíettukjólinn sem ég keypti í KISS í hitteðfyrra og láta gott heita. Sirra sæta mætti í appelsínugulu gullfallegu skónum sínum sem var mjög nauðsynlegt að yrðu með á þessari mynd :)

Annars tapaði ég Eurovision veðmálunum sem ég tók í vegna óvenjulegrar bjartsýni sem hefur ekki verið til staðar hjá mér síðustu ár. Ég sný því líklega aftur til fyrri svartsýni á næsta ári. :) Það kostar mann svo margar vínflöskur að vera svona bjartsýnn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli