föstudagur, 8. júlí 2011

Í kjallaranum (tjútjúa)....

Þegar maður kemur heim í Lagarfellið og skoðar sig um í gamla herberginu í kjallaranum, þá rekst maður oftar en ekki á fortíðardrauga. Ég hef alla ævi verið mikill safnari og haldið upp á hin ýmsu listaverk sem urðu til á grunnskólaárunum, einhver sagði mér nefnilega að þetta væru hlutir sem ég myndi í framtíðinni hafa gaman af því að eiga. Sá hinn sami verður hér með stimplaður "vitur" þar sem það er svo sannarlega rétt og satt!!

Ég staldraði stutt við í herberginu mínu áðan innan um allar minningarnar og fann þar í einni skrifborðsskúffunni minni ljóðahefti sem ég gerði í ritlistartíma í Fellaskóla þegar ég var í 9. bekk, fallega skreytt með tippex penna.


Þessa tíma kenndi Jarþrúður okkur og verkefnin voru ýmist að prufa að yrkja mismunandi form ljóða eða semja ljóð við myndir sem hún hafði ljósritað. Eitt verkefnið sem ég tókst á við var að semja ljóð þar sem öll endaorð rímuðu við hvort annað. Þegar ég las yfir það ljóð áðan varð ég nokkuð hrifin þar sem um 10 rímorð er hér að ræða í 10 línum. Ég held því fram hér að ef ég semdi ljóð í dag yrði það allavega ekkert skárra. Leyfi því hér að fylgja með. Ljóðið er því ort veturinn 2000-2001.

Vinur minn
Vin minn, þig vil ég ei græta
og mistök mín þér upp vil bæta
því nú finnst mér vont þér að mæta
en bros þitt var vant mig að kæta.
Ég veit samt þú ert mín að gæta.
Ég vild' heldur sár við þig þræta,
en hvert einasta kvöld augun væta,
þú mitt hjarta ert búinn að tæta
og að ég sleppi þér er ekki glæta.
Þú ert ljós mitt á milli stræta.

Fortíðin er svo skemmtileg.... sérstaklega þegar maður hættir að skammast sín fyrir hana :)

1 ummæli: